Handrit

Vagninn er í varpastöðu – hurðin fram

Verkið byrjar á auglýsingu frá VÍS – HEPPINN?

Þegar að henni lýkur skellur á niðamyrkur og mikill hávaði.

Raddir í myrkrinu:

1. rödd:       Helvítis fíflið þitt! 

2. rödd:       Getur einhver hjálpið mér hérna!

3. rödd:       Þeir ætla að drepa mig!

4. rödd:       Fariði! FÁVITAR!

Ljós koma upp, leikarar frjósa, leikari 1 og 2 snúas sér hægt að leikkonu – Niðamyrkur

1. rödd:       Skiptið ykkur ekki af því sem ykkur kemur ekki við!

2. rödd:       Fyrirgefðu, ég meinti þetta ekki!

3. rödd:       þetta eru drullusokkar allt upp til hópa!

4. rödd:       Þú verður að hjálpa mér!

Ljós koma hratt upp.

Leikari 1 gengur að vagninum og ýtir honum til sviðs vinstri.

Stúlka hefur hengt sig! Löng Þögn. Leikari gengur inn í rýmið og virðir fyrir sér hengdu stúlkuna smá stund. Snýr sér síðan að áhorfendum.

Leikari 1

[1]Skrýtið að vilja tortíma sjálfum þér, skrýtið að vilja deyja, veslast upp og deyja úr veikindum sem þú veist ekki af  - því þau eru hugur þinn, draumur og blekking í kynjaskógi sem enginn ratar út  úr -  nema hann sjái ljósið. (E.M.G)

Leikari 2

Þetta hefði ekkert þurft að fara svona. Ef þessi stúlka hefði nú kannski tekið pínulítið öðruvísi ákvarðanir þá hefði þetta kannski ekki farið svona. Ef og hefði? Undarlegir þessir bræður ,,ef “og ,,hefði” en þeir eiga  sér frændur sem heita ,,á ég?” eða ,,ætti ég” Nei, fyrirgefiði mér ... ég er að gleyma einum  meðlim í þessari fjölskyldu ... hann gleymist nefnilega mjög oft ... sérstaklega þegar maður er ungur og hugurinn er í mótun ... nefnilega ... ,,hvað svo?”  Einmitt ... ,,hvað svo?” Hugsið þið um hann   ,,hvað svo?” Ég er ekki svo viss nefnilega. Hún vinkona okkar hérna þekkti ekki  þennan ,,hvað svo” og þess vegna kannski fór sem fór ... eða hvað?

Leikari 1 hefur dundað sér við að “skera” Jóhönnu niður úr snörunni og heldur á henni í fanginu undir næstu setningu.

Leikari 1

Sjálfsmorð eru önnur algengasta dánarorsök ungs fólks á aldrinum 15 – 24 ára á Íslandi. Meira en helmingur dauðsfalla sögð eru vera af völdum slysa eru í raun sjálfmorð.

Leikari 2: Keyrir vagninn yfir leikarana hann endar sviðshægri

Ég þekkti þessa stelpu, Jóhönnu. Hún var 25 ára þegar hún gerði þetta og löngu hætt í dópi.  Maður hélt hún væri komin á beinu brautina. Hún var farin að tala um það sem hafði komið fyrir hana í fjölmiðlum og svona, ákveðin í að gefa þeim stelpum sem lenda í því sama og hún andlit.  Hún vildi að fólk vissi hvert fíkniefnaneyslan leiðir.  Eiginlega allt sem maður gerir í lífinu veltur á því að taka ákvörðun.

Maður 1 birtist án stúlkunnar út úr hinum enda vagnsins.

Leikari 1

Þegar ég var lítill sagði pabbi við mig að ég þyrfti að passa mig á áfengi af því að hann væri svo mikill alki, og afi og langafi. Ég man ég hugsaði mig aðeins um en sagði svo við Pabba “pabbi ... af hverju fer ég ekki bara í meðferð áður en ég byrja að drekka”?

Ég var auðvitað bara að grínast en samt ... því meira sem maður veit um hlutina því auðveldara er að vara sig á þeim.

Leikari 2

Jóhanna ætlaði sér aldrei að taka líf sitt  – hún ætlaði sér aldrei að lenda í því sem hún lenti í. Það eru þessir litlu hlutir, þessar litlu ákvarðanir. Jóhanna var ósköp venjuleg stúlka og átti ágæta æsku, gekk vel í skóla, foreldrar hennar voru gott fólk og vildu dóttur sinni vel.

Leikari 1

Við vitum að langflest ykkar sem eruð hérna inni eruð í góðum málum sem betur fer, hafið metnað til að standa ykkur í skóla og eruð með markmiðin og mottóin á hreinu og fyrir fyrir ykkur langflest er eitthvað eins og þetta (Bendir á snöruna) eða svona (gerir heryfingu eins og hann sé að sprauta sig) afskaplega fjarlægur möguleiki.  En það eru krakkar sem byrja ungir að drekka, sumir byrja allt of ungir ´neyslu og bara hreinlega festast í einhverju bulli. Lenda svo bílslysi

Leikari 2 eru stungnir á hol,

Leikari 1lenda ,,óvart” í slagsmálum,

Leikari 2 Einmitt óvart ... lenda í fangelsi,

Leikari 1 drukkna,

Leikari 2 detta fram af svölum ...

Leikari 1 þær eru margar sögurnar!

Leikari 2 Við ætlum að segja ykkur nokkrar ...

Leikari 1 og þær eru allar sannar!

Vagninn yfir leikara 1 & 2, tekur hálfan hring, endar í væng sviðs vinstra

Stef Nonna Ekkó heyrist. Vagn rennur yfir þá. Senuskipti. leikarir 2 kemur úr vagni

Leikari 2 (sem Nonni Echo):

Djöfull var gaman í gær maður, úrslitakvöld Músíktilrauna! Eftir útslitin hlupum við beint út í bílinn hans Denna, helltum í okkur, vorum orðnir blekaðir eins og skot! Það þarf að halda upp á þetta einhvern veginn maður!

Ég var svo fullur að ég lagðist í grasið á Arnarhóli og horfði á himininn snúast. Skítkalt, fokking snjór alls staðar en ég fann ekki fyrir neinu. Sá bara stjörnurnar. Það blandaðist allt saman og snerist fyrir augunum á mér, það var geðveikt. Stjörnuregn. Starna er fædd! Svo sneri ég mér við og sá vin minn sem var alveg að drepast við hliðina á mér, djöfull var hann fyndinn, hann lá þarna og ældi út á hlið og þá sprakk ég úr hlátri, hann var eitthvað svo glataður. Það þarf að halda upp á þetta einhvern veginn maður! Við vorum að vinna fokking Músíktilraunir. Eða þú veist, lentum í öðru sæti. Áttu samt salinn sko. Þetta var geðveikt. Allir öskrandi og við bara upp á sviði alveg brjálaðir! Þessi dómnefnd bara höndlaði ekki sannleikann.

Ég reif míkrafóninn af einum dómaranum og öskraði: "Dreyri er í húsönö!" Það varð allt vitlaust! Sjitt! Svo var bara púað á þá sem unnu sko.

Við fórum heim til einhvers gæja sem félagi minn vissi um, foreldrar hans búa úti á landi svo það var gott partý í gangi. Ég fór inn í stofu og það var einhver gaur þarna að reyna við kærustuna mína, eða þau voru allavega að dansa. Ég sá hvernig hún horfði á hann og ég var ekki að fíla það svo ég fór bara inn í eldhús. Ég var búinn með vínið mitt en ég varð að halda áfram að djamma svo ég fór að leyta að einhverju til að drekka, ég fann hálfa flösku af landa en þá kom vinur minn til mín og sagði mér að þau hefðu farið í sleik gaurinn þarna og kærastan mín, eða hún er sko fyrrverandi kærastan mín, en ég á þessar kellingu skilurðu. Ég brjálaðist og hljóp inn í stofu og dró hann út á bílastæði. Ég henti honum utan í bíl þarna ... og það var eiginlega ekki fyrr en ég hélt í hálsmálið á honum með hnefann á lofti að ég fattaði hvað ég var að gera. Ég hef aldrei lamið neinn áður...

Vagninn gleypir Nonna ... snýst í heilan hring undir þessu lagi, endar sviðshægra, hurð aftur

Kellingar og byssur, kellingar og byssur
Kellingar og byssur útum allar fokking trissur!
Mættur á svæðið, eins og Gordon fokking Gekkó!
Gettu hver það er - Þett' er Nonni fokking Ekkó!

Nonni birtist aftur- nú vopnaður og greinlega breyttur maður.

Af hverju biðja sumir menn um að láta berja sig? Maður sér það í andlitinu á þeim, Þú veist, þeir þurfa það. Ég lamdi einu sinni gaur með felgulykli.

Hann var með hníf. Og það var svo gott að brjóta beinin í andlitinu á honum og horfa á hann blæða. Ég hefði sennilega drepið hann ef ég hefði ekki hætt ... Ég held við eigum eftir að muna eftir hvor öðrum.

Leikari 1 kemur út úr vagninum,  Nonni biður hann um pening, ætlar síðan að ræna hann, Leikari 1 flýr inn í vagninn og Kiddi á eftir

Leikari 1 hendist út úr vagninum eins og eftir átök við Nonna

Leikari 1

Hvað er eiginlega að gerast með þennan dreng? Hæ. Ég heiti Guðmundur Ingi, kallaður Gummi og er leikari, leikstjóri og tónlistarmaður. Ég er ekki dópisti og ekki fyllibytta og hef aldrei farið í meðferð. Ég held að það sé mömmu minni að þakka. Sko þegar ég var 13 ára ákváðum ég og vinir mínir að stela víni af pöbbum okkar og prufa að detta í það og gerðum það og það var bara gaman. En þegar ég kom heim beið mamma eftir mér. Mamma mín er svona eins og svo margar mömmur, þið þekkið þetta, veit einhvernvegin alltaf hvað maður er að hugsa, les mann eins og opna bók og vissi greinilega upp á hár hvað var í gangi hjá mér. Hún hafði reyndar mjög góða reynslu, pabbi minn er alkóhólisti, bróðir hans er alkohólisti, afabræður mínir tveir þeim megir eru alkohólistar, pabbi hennar, afi minn er alkóhólisti og bróðir hans ... og ok, það er bara þannig að nokkurnveginn allir karlmenn í báðum mínum ættum sem á annað borð hafa farið að drekka lenda í tómu tjóni með það. En mamma tók mig inn í stofu og sagði mér að ég yrði að gera mér grein fyrir því að ef að ég ætlaði að byrja að drekka núna 13 ára, myndi ég einfaldlega enda á götunni. Hún sagði að ég væri alveg eins og þeir karlmenn í minni ætt sem verst hefðu farið út úr áfengi. Sagði mér að ég væri eiginlega alveg eins gerður og afabróðir minn sem var göturóni meira og minna allt sitt líf, en var sem ungur maður afar glæsilegur, vel gefinn og hefði getað orðið hvað sem hann vildi. Mamma hitti mig í stoltið og metnaðinn þannig að ég drakk ekki aftur fyrr en ég var orðinn 21.  Þá komst ég inn í Leiklistarskólanna og hugsaði fokk it! Ég er orðinn fullorðinn og hey nú er ég orðinn listamaður, ég verð að reykja og drekka, allir leikarar gera það. Ég meina lesiði bara blöðin, allir alvöru listamenn reykja og drekka og margir dópa

Leikari 2

Gummi, má ég bara aðeins ... hæ ég heiti Ævar og er nýútskrifaður leikari frá Listahálskólanum og ég hef aldrei drukkið, aldrei reykt og aldrei dópað og mér gengur bara djöfulli vel. Ég er samt ekki að segja að þið eigið ekki að drekka en ég er bara að henda inn þeim möguleika í pottinn að það er alltaf möguleiki að sleppa því.

Leikari 1

Allavega. Ég gerði. Það tók mig þrjú ár að fara frá núllinu að því að verða fullur á hverju kvöldi meira og minna og reykja 2 pakka af sígarettum á dag. Frá því að ég byrjaði að drekka og reykja var ég að reyna að hætta því af því að mér leið svo miklu betur án þess. Það tók mig 16 ár.

Í dag líður mér vel og er hættur að vera reiður út í pabba og svona. En ég er viss um að ef að ég, með mín gen, hefði byrjað 13 ára, eins og ég ætlaði fyrst, væri ég ekki hér. Kannski hefði ég bara endað eins og Jóhanna, dauður.

Vagn gleypir Leikara 1 og endar með opið aftur (langsum) á miðju sviði

Leikkona syngur upphafið af The Hills are Alive úr Sound of Music

Leikkonan:

Hæ. Ég heiti Jara. Ég reyki ekki og ég byrjaði ekki að drekka fyrr en ég varð 21. Af hverju ekki? Kannski vegna þess að pabbi minn er óvirkur alki og ég vildi reyna að fresta því eins lengi og ég gat? Það er alveg góð og gild ástæða, en það var samt ekki þess vegna. Mig langaði hreinlega ekki til þess.. Mér fannst ég ekki þurfa þess. Mér fannst ég ekki vera að missa af neinu og mér fannst það alls ekki vera töff. Ég vildi frekar gera eitthvað annað í menntaskóla. Eitthvað sem mér fannst miklu meira spennandi. Ég var ekki að missa af neinu. Ég held að ég hefði misst af miklu meiru ef ég hefði byrjað á sama tíma og allir hinir.

En tölum aðeins um Jóhönnu. Það er yfirleitt aldrei talað um að einhver deyji af völdum fíkniefnaneyslu ... hún dó af því hún lenti í slysi eða tók líf sitt, en af hverju gerði hún það?  Jú – flestir sem taka líf sitt eru í annarlegu ástandi annað hvort vegna áfengis eða annara fíkniefna eða í fráhvörfum.  Það er líffræðilega sannað að neysla vímuefna sem og fráhvörf auka hvatvísi. Það þýðir að maður framkvæmir án þess að hugsa. Það á sér líka stað ákveðin brenglun í heilanum sem veldur því að hömlurnar, eða bremsurnar bara hreinlega virka ekki.

Við heyrum að Leikari 1 og 2 eru farnir að rífast inn í vagninum. Allt í einu er Leikara 2 hrint inn á sviðið úr vagninum. Það er ljóst að hann vill ekki vera þar eða gera það sem meðleikarar hans ætlast til af honum. Hann reynir að snúa aftur inn í vagninn en þá kemur hendi með kvenmannskápu út um hurðina á móti honum.  Leikari 2 klæðir sig í hana með semingi.

Leikari 2-

Ætlar aftur inní vagninn en þá snýst hann kvarthring svo hann kemst ekki inn. Lúgur fram.

Leikari 1 kemur út með hatt og slengir í leikara 2, hann setur upp hattinn og fer eftir harðar deilur, þar sem hann skilur ekki af hverju hann þarf að leika kerlingu í gerfi og hlutverk frænku Jóhönnu.

Leikari 2 í gerfi frænku

Ég er frænka Jóhönnu. Ég tók strax eftir því hvað Jóhanna var sjarmerandi.  Hún hafði víst alltaf verið svona.  Alveg frá því að hún var barn.  Brosið heillaði mann upp úr skónum.  Hún var greind og hlý. Hún hlustaði og horfði í augun á manni.  En hún var líka á einhvern máta svo sérkennilega tóm.

Leikari 1  

Dópið og vændið höfðu náttúrulega sett mark sitt á hana.

Leikari 2 í gerfi frænku 

Það veit ég bara ekkert um! Hver ert þú? Hún vantreysti karlmönnum. Eins og þér. Hún vantreysti öllum.  Kannski helst sjálfri sér.

Leikkona

Hún var náttúrulega bara orðin veik

Leikari2: í gerfi frænku

Veik og ekki veik! Það veit ég ekkert um. En þegar hún var barn! Gat setið allan daginn og sagt sögur og maður bara sat með henni og hlustaði.  Drakk í sig allt sem hún hafði að segja.  Hún var svo greind.  Full af réttlætiskennd.  Alltaf að berjast fyrir þá sem minna máttu sín. Manni fannst hún aldrei ein af þeim.

Bendir á leikara 1

Leikari 1 gengur að leikara 2

Ein af þeim, hvað áttu við?

Leikari2: í gerfi frænku

Nei, nei ekki þú, ég meinti ein af þeim

Tekur sér stöðu hjá leikara 1 og bendir á Leikkonu

Leikkona gengur að Leikara 2

Ein af þeim?

Leikari 2 í gerfi frænku 

Nei ... ekki ... sko það er bara mjög erfitt að skilja þetta... ég bara skil þetta ekki .... og þetta kemur ykkur bara ekkert við, þetta er bara fjölskyldumál ... rýkur útaf

Leikkona:

Já það er erfitt að skilja þetta.

Leikar 1

Það er erfitt að skilja þetta. Það er verst hvað allt lítur sakleysislega út í byrjun. Bara fikt.

Leikkona

Maður heyrir krakkana segja sjálfa meira að segja:

“Mig langaði að prófa þegar félagarnir sögðu að það væri gott”.

Leikari 1

Víman og nýji félagsskapurinn hjálpuðu mér að gleyma vandamálum sem ég stóð frammi fyrir og gat ekki leyst.

Leikkona:

Ég var hrædd um að mér yrði sparkað úr hópnum ef ég yrði ekki með.

Leikari 2:

Fannst það töff á þeim tíma og sá sem bauð mér efnið fullyrti að hass væri ekki vanabindandi.

Leikkonan

Ég var á rúntinum með einhverjum krökkum útúrfull og við keyrðum framhjá gaur sem allir vissu að væri að sprauta sig. Og ég hugsaði bara, greyið, svona verð ég aldrei.

Leikari 2

Það var eitthvað ömurlegt forvarnardæmi í skólanu, verið að sýna myndir af dópistum og grenjum niðri í bæ ... og mér fannst það bara svo töff, hugsað ekki spurning, ég ætla þangað.

Leikkona:

Ég ætlaði að hætta þegar ég yrði háð!

Leikari 1

Krakkar heyriði þetta!  Skiljiði hvað þetta er fáránlegt ... Að ætla að hætta þegar maður er orðinn háður. Þegar maður er háður einhverju stjórnar það ferðinni og þú lýgur, stelur, svíkur og meiðir og þá er ekkert grín að hætta.

Leikari 2:

Stelpan sem sagði þetta við okkur var komin með lifrarbólgu C með lambhúshettu á hausnum á leiðinni að ræna Subway til að eiga fyrir næsta skammti.

LAG – Jara

Draumar sveima í gegnum huga minn;
fuglar sem þrá að fljúga um himininn.
Alsælan býr mér til draumaheim,
þeytir mér langt út í himingeim.

Kastalar, riddarar
og prinsessa er hallarfangi ófreskjunnar.
Þetta er heimurinn minn. Þetta er tilgangurinn.

Dagarnir endalaust myrkur
sem byrgir mönnum sýn.
Næturnar breytast í daga
þar sem myrkrasólin skín.
Ég hvorki vil vaka né sofa
ég veit ei hvað bíður mín
handan við heiðina háu
vindurinn hvín.

Óttinn smýgur inn í huga minn
Vængbrotnir fuglar fljúga um himininn.

Í kjólinn fór

drekablóð
sem dökkblátt varð að lit

er það rann út í sjó.
Hvar er heimurinn minn? Hver er tilgangurinn?

Dagarnir endalaust myrkur
sem byrgir mönnum sýn.
Næturnar breytast í daga
þar sem myrkrasólin skín.
Ég hvorki vil vaka né sofa
ég veit ei hvað bíður mín
handan við heiðina háu
vindurinn hvín.

Og myndin sem í huga var svo skær
með hverjum degi færist fjær og fjær.

handan við heiðina háu
vindurinn hvín.

Leikari 1 og Leikkona hverfa inn í vagninn

Leikari 2

Þessir krakkar sem við vorum að vitna í hérna áðan komu frá alls konar heimilum en áttu það sameiginlegt að byrja að drekka áfengi 12-16 ára og komust fljótt í kynni við „nýja“ vini sem kynntu þau fyrir hassi. Þau notuðu hassið, ásamt áfengi, í nokkurn tíma en kynntust þá amfetamíni. Tóku amfetamín í nefið í fyrstu, en fóru síðan að sprauta sig í æð. Eftir þetta notuðu þau hvaða vímuefni sem var og fjármögnuðu neysluna með alls konar afbrotum.

Leikari 1 og leikkona birtast í lúgum á vagni

Leikari 1

Pæliði í því - að yfir 60% þeirra sem eiga við örðugleika að stríða í grunnskóla vegna hluta eins og lesblindu, ofvirkni, athyglisbrests, eineltis og þess háttar, eiga í félagslegum erfiðleikum, lenda í vandræðum með áfengi og dóp.  Hvað finnst ykkur um það?

Leikkona

Finnst ykkur það eðlilegt? Berum við ekki einhverja ábyrgð?

Leikari 2 Ævar vísindamaður úr stundinni okkar??

Mynd!

Núorðið er hægt að mæla hvernig heilinn í okkur virkar. Dópamín er efnið í heilanum sem við fáum í verðlaun fyrir að gera vel. Fyrir að hreyfa okkur, borða og svona. Öll vímuefni pína heilann til að losa meira dópamín, hvert á sinn hátt. Hérna er mynd af venjulegum heila. Þetta er mynd af heila í manni sem hefur fengið fullt af verðlaunum fyrir að hreyfa sig. Hérna er mynd af heila úr manni í kókaínvímu. Ég er að sýna ykkur þetta svo þið skiljið næstu mynd. Þetta eru myndir af heilum úr öpum í sitthvoru búrinu. Báðir eru svona eðlilegir. Svo eru þeir settir í sama búrið og þeir fara samstundir að berjast um það hvor ráði í búrinu. Annar hefur betur og leggur hinn svona, já segjum það bara, í einelti. Sjáiði muninn á dópamíninu í heilanum? Annar er ánægður með sig, hinum líður bölvanlega. Þeim sem líður bölvanlega er hættara en öðrum til að stytta sér leið í gott ástand með því að neyta einhverskonar vímuefna.

Leikkona kemur aftur út úm lúgu.

Og við þau sem líður illa viljum við segja:  Það leysir aldrei nein vandamál að flýja þau. Ekki nota það að eiga bágt sem afsökun fyrir því að eyðileggja líf ykkar. Hvað græðið þið á því?

Leikari 2

Væri ekki nær að bara báðir færu út og gerðu eitthvað skemmtilegt?

Leikari 1

Ef þér líður illa, ert einmanna eða afskiptur, finndu þér þá einhvern til að tala við, einhvern sem þú treystir. Þið getið alltaf farið á heimasíðuna okkar, spurt okkur, sent okkur póst, þar eru líka upplýsingar og tenglar og símanúmer og lögin úr sýningunni og handritið og bara ... aaalllllltttt

Slóðin á heimasíðuna – Hvadef.com birtist á vagninum.

Leikari 2:

Kynferðislegt ofbeldi er búið að vera mikið umræðunni undanfarið og þið fylgist örugglega vel með henni. Við höfum ekki tíma til að fara nákvæmlega út í þá sálma hér en þetta er hins vegar staðreynd. Um 60% kvenna sem koma til meðferðar hjá SÁÁ hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í einhverri mynd. Það hefur stundum verið orsök þess að þær byrjuðu að drekka og dópa og hafa eytt mörgum árum af ævi sinni í að láta sér líða ennþá verr í vímuhelvíti. En flestar hafa þær orðið fyrir ofbeldinu undir áhrifum vímuefna, þar sem þær hafa verið í annarlegu ástandi sem hefur orðið til þess að þær hafa ekki getað varið sig.

Leikari 2 snýr vagninum í hálfan hring , dregur hann í raun yfir sjálfan sig og hann endar sviðs hægra.

Leikkona í gerfi Jóhönu birtist

Leikkona:

Heima hjá mér er hvort sem er aldrei neinn .... það nennir enginn að vera heima af því það er svo leiðinlegt ... við erum löngu hætt að borða kvöldmat saman. Ég nenni ekki að éta ... ég píni í mig smá svo fer ég inn í herbergi og æli draslinu í litla plastpoka sem ég fel inni í fataskápnum mínum. Ég safna þeim í nokkra daga svo hendi ég þeim þegar enginn sér til ... ég þarf ekkert að borða ... ég drekk Burn og þræla í mig samlokum stundum ... ég sprautaði mig einu sinni ... eða kærastinn minn gerði það ... mér fannst það ógeðslega vont fyrst ... en kikkið var geðveikt ... ég lá í gólfinu með lappirnar upp í loft  og þá fóru ljósaperurnar að breytast í stjörnur og geðveikt lag tók sér bólfestu í hausnum á mér ... ég veit ekki hvort strákarnir tóku mig ... ég man það ekki .. kannski Siggi ... hann er sko besti vinur kærastans míns og fær stundum að ríða mér ... en ekki oft ... mér finnst allt í lagi að leyfa þeim það .. það skiptir engu máli ... þeir eru bara með typpi og vilja fá það ... þeim finnst það geðveikt  .... mér finnst það líka geðveikt ... sérstaklega þegar ég fæ eitthvað í staðinn ... haus ... nös ... eitthvað bara ... mér finnst samt ömurlegt að sprauta mig ... einu sinni þurfti ég að fara upp á slysó af því ég varð svo veik ... en læknarnir héldu bara að ég væri svona full svo þeir létu lögguna fara með mig heim ... aumingja þeir að hringja bjöllunni ... á húsinu heima hjá mér er bjallan svona engill sem hangir á dyrakarminum og bjölluhnappurinn er í rassinum á englinum svo löggustrákurinn þurfti að stinga puttanum inn í rassinn á englinum okkar til að geta hringt bjöllunni .... þá kom mamma til dyra ...svona ógeðslega sólbrún og mjó  ... hún kom einu sinni á forsíðu í Vikunni ... af því hún missti 50 kíló ... hún var blindfull og sýndi löggunum brjóstin á sér ... frábært .. þeir bara gláptu á brjóstin á henni og buðu mér góða nótt ....

Vagn rennur fyrir framan leikkonu og endar í væng sviðs vinstra.  Leikari 1 birtist

Einstaklingsatlot Leikari 1 og leikkona syngja

Góðan daginn

Takk fyrir síðast

Þú mannst kannski ekki eftir mér

Ég kom í partý

Drapst upp í rúmi

Vaknaði með þér oná mér

Það skiptir engu

Úr þessu

Hver var hvurs hver vildi hvað

Óska þér

Til hamingju

Þú komst upp á dauðan mann

Villidýr

Veiða lifandi bráð

Hræætur og pöddur nærast á því sem aðrir hafa ekki áhuga á

Leikari 2 snýr vagninum á punktinum og syngur bakraddir í gegnum lúgu. Lúgurnar snúa fram.

Og þú ert ein af þeim

Og þú ert ein af þeim

Og þú ert ein af þeim

Þú ert ein af þeim

Hvernig var ég

Fékkstu fullnægingu

Það fór alveg framhjá mér

Vona samt þú hafir

Losað um spennu

Og líði eitthvað skár en mér

Villidýr....

Þú ert ein af þeim ...

Ég fór í tékk

Það er allt í lagi

Svona fræðilega séð

Og skil svo vel

Þína stöðu

Hver sefur viljandi hjá þér

Villidýr ...

Og þú ert ein af þeim ...

Leikkonan tekur gítarinn af leikara 1 og fer inn í vagninn.

Leikari 1:

Ég talaði við Elmar um daginn,  23 ára strák sem nýlega fékk að vita að hann væri með lifrarbólgu C.  Elmar er myndarlegur strákur sem byrjaði að drekka 13 ára og síðan að fikta við eiturlyf.  Hann hefur bara áhuga á tónlist, hann vinnur ekkert þvi honum finnst hann svo mikill listamaður og heldur að listamenn vinni ekkert og er enn algjörlega viss um að hann meiki það. Eftir að hafa talað við Elmar smástund komst ég að því að hann er ennþá bara 13 ára í hausnum, hann hefur ekkert þroskast í 10 ár.  Þannig virkar dópið. 13 ára var Elmar viss um  að það væri ekki hægt að vera góður tónlistarmaður án þess að  nota eiturlyf.

Leikkona dregur vagn á eftir sér í átt að varpastöðu leikarar 1&2 taka við honum og stilla hann af

Leikkona  

Það er engin furða … þessu er haldið að okkur í fjölmiðlum … fjölmiðlar elska að segja okkur frá stjörnum sem eru teknar með dóp og frá stjörnum sem viðurkenna að þær noti eða hafi notað eiturlyf. Fjölmiðlar elska neikvæðar fréttir og hræðsluáróður… það selur betur skiljiði.

… af hverju er okkur aldrei sagt frá stjörnum sem nota alls ekki dóp, trúið mér … þær eru miklu fleiri en dópstjörnurnar.

Leikari 2: birtist í lúgu á vagni

Elmar ætlaði bara að drekka og nota  marjúana, hann hafði séð og heyrt að uppáhalds tónlistarmaðurinn hans,  Bob Marley hefði gert það og … hey .. hver vill ekki vera eins og Bob Marley … sóðalegur, vansæll og deyja úr krabbameini, heilaæxli og heróíni 36 ára. (Mynd af Marley)

Leikari 1

Elmar á örugglega eftir að ná því, eini munurinn á honum og Bob heitnum er að Elmar verður aldrei neitt. Það þarf nefninlega fleira en að sitja einhversstaðar útúrdópaður og reyna að semja gott lag til að verða alvöru tónlistarmaður, þú verður að framkvæma, spila, gefa út og allt það og það gerist ekki ef þú ert að neyta eiturlyfja ... það gerist ekkert ef þú ert að neyta eiturlyfja, nema að þú neytir eiturlyfja.

Leikkona:

Fjölskyldan er búin að fá nóg af honum, búin að henda honum út ... loksins!  Hann DJ ar á skemmtistað og fær að borða þar í staðinn. Og hann er bara 23 ára.

Leikari 2 

Fyrir hvern einn Bob Marley sem meikar það eru þúsundir sem trúa einhverjum uppspuna og þjóðsögum um hann og enda eins og Elmar. Ég skora á ykkur að lesa hina raunverulegu ævisögu Bob Marley. Trúið mér, hann ætlaði aldrei að byrja á heróíni.

Lokar lúgu

Leikari 1 

Ekki láta nokkurn einasta kjaft segja ykkur að þið þurfið eiturlyf til að verða góðir tónlistarmenn eða góð í nokkrum sköpuðum hlut.

Leikkona spott
Undanfarin fjögur ár hafa  278 einstaklingar komið til SÁÁ sem voru að byrja eða höfðu um hríð sprautað sig og voru 24 ára eða yngri.  186 þeirra voru búnir að reykja canabisefni daglega í ½ ár  og 43 höfðu notað efnið daglega í lengri tíma en það.

Leikari 1 Spott  

Canabis slær á kvíða og þunglyndi, en athugið að líkaminn bregst við canabisefnum með því að hætta að framleiða þau náttúrulegu efni sem hann býr til sjálfur til að vinna gegn kvíða og þunglyndi, þannig að fólk fer að þurfa canabis til að losna við kvíðaeinkennin og eyðileggur um leið hæfni sína til að framleiða þessi boðefni sjálft.

Leikari 2 Spott

Kanabis eða hass, gras, er það ólöglega vímuefni sem unglingar nota mest og ekki eru lengur áhöld um að hass gerir meiri usla í þessum aldurshópi en áfengið. Í 48% tilvika er hass aðal vandi unglinga sem leita inn á Vog, 31 % áfengi og 17% amfetamín.

Leikkona Spott

Nýjar rannsóknir í lyfjafræði sýna einnig að kanabisefni valda vímu með því að örva sömu heilastöðvar og taugabrautir og heróín.

Leikari 1 Spott

Það er því bara hreint út sagt lygi að halda því fram að kanabis sé ekki líkamlega ávanabindandi og sé í raun hættuminna en áfengi. Það er vísindalega sannað að canabis ryður brautina fyrir önnur og enn hættulegri vímuefnum.

Leikari 2 spott

Kvíði og ótti eru eðlilegar tilfinningar, tilfinningar sem við þurfum á að halda til að komast af í lífinu. Þetta eru tilfinningar sem gera okkur mannleg. Það eru aðeins tvær leiðir til að losna við við þær að horfast í augu við þær eða tala um þær, ekki að flýja þær í vímu.

Leikkona:

Árið 2009 komu á Vog  208 krakkar yngri en 19 ára, hugsið ykkur, það er eins og 8 skólabekkir. 74%  þeirra voru með annað efni en áfengi sem aðal vímuefni. 160 þeirra neyttu kannabisefna daglega og 110 af þeim höfðu í beinu framhaldi orðið stórneytendur amfetmíns. 60 þeirra hafa sprautað sig í æð. Árið 1994 höfðu 9% þeirra sem innrituðust sprautað sig, 25% í dag, hugsið ykkur 1 af hverjum 4um.

Leikari 1

Þetta er nákvæmlega það sem kom fyrir Elmar … hann varð háður hassi sem gerði hann dapran sem varð til þess að hann fór að nota E, amfetamín og kókaín til að vera hress og loks að sprauta sig …  og það á endanum með contalgini, sem er leyst upp úr sterkum verkjatöflum og er miklu meira ávanabindandi en heróín ... og þegar maður er kominn í það, gerir maður bara hvað sem er ... það ætlar sér  enginn að fá lifrarbólgu C … Þannig var líka með Elmar … en kvöld eitt í partýi fyrir þremur árum gerðist Elmar kærulaus, eða .. kannski ekki beint kærulaus, hann tók meðvitaða ákvörðun um að fá lifrarbólgu C ... og fannst það þá, í því ástandi sem hann var, frábær ákvörðun. Vinur hans, sem átti dóp var með lifrarbólgu C ... og hann átti bara eina notaða nál, og Elmar hugsaði ... fokk it.  Fíknin varð allri skynsemi yfirsterkari.

Leikkona:

Gummi, hvernig er þessi lifrarbólga C?

Leikar 1

Sko ...

Leikari 2

Ég tek þetta. Um síðustu áramót höfðu yfir 800 manns á Íslandi greinst með lifrarbólgu C, af þeim voru 89% sem  sprautuðu  sig í æð. Lifrarbólga C smitast með blóðblöndun og kynmökum og algengast er að hún smitist þannig að einn sprautufíkill smiti annan af því að þeir hafa verið að lána hver öðrum nálar.

Leikkona

Já ég veit, en hvernig er Lifrarbólga C?

Leikari 1

Lifrarbólga ....

Leikari 2:

Ég skal. Lifrarbólga C er ömurlegur, bráður og viðvarandi sjúkdómur sem er einkennalaus í 75% tilvika þar til hann veldur skorpulifur eða lifrarkrabbameini sem veldur dauða.

Leikkona:

Ertu að segja að ég gæti verið með lifrarbólgu C án þess að hafa hugmynd um það?

Leikari 2:

- og smitað án þess að vita það  og það sem verra er þá er mjög erfitt að lækna lifrabólgu.  Árið 2009 greindust 41 nýtt tilfelli af lifrarbólgu C. Á Íslandi í dag er talið að séu rúmlega 600 virkir sprautufíklar.

Það sem fólk hefur óttast í mörg ár er orðið að veruleikar. Alnæmi er komið í heim sprautufíkla á Íslandi. Í fyrra greindust 19 ný tilfelli, sem er margfallt meira en árin á undan af alnæmi á Íslandi, flest þeirra meðal virkra sprautufíkla.

Leikari 1 og leikkona koma úr lúgum með trúðanef ...

það sem gerist í þessu atriði er spuni nema að þessi litli texti Einars Más er látinn standa hreinn og kynntur sem ljóð.

Leikari 1: Hefurðu tekið eftir því hvað dúfur eru með litla hausa? Heldurðu kannski að þær séu ekki með neinn heila?

Leikkona: Nei þær eru með vængi, til hvers ættu þær að vera með heila?

Leikari 1: Meinarðu að það sé betra að vera með vængi en heila?

Leikkona: Ég held að það sé best að vera með vængi á heilanum?

Leikari 2 er búinn að fá nóg af trúðunum og kemur og lokar lúgunum tveimur á nefið á þeim. Þeir opna þriðju lúguna sem er í klofhæð og hún fer í Leikara 2. Hann dettur niður og deyr. Trúðarnir hlæja fyrst en þegar þeir átta sig á því að hér er alvara á ferðum kveðja þeir og loka lúgunum skömmustulegir.

Leikari 1: kemur út til að tékka á Ævari sem liggur sem dauður.  Fréttastef og Leikari 1 breytist í fréttamann.

LEIKKONA LÆSIR HJÓLUM Á VAGNI ÞEGAR FRÉTTASTEFIÐ KIKKAR INN.

Í Þjóðleikhúsi Íslendinga gerðist vofeiflegur atburður í morgun, ungur leikari fékk í sig hlera og lést samstundis.... Hann fær greinilega fyrirmæli í eyrað. Okkur var að berast ný frétt ... uppi í Árbæja var einhver að detta í lukkupottinn og vinna í lottó, svo alsæll að þeir trúa ekki sínum eigin augum, eða svo segja þeir.

Fegurðardrottningin tárast í beinni útsendingu og lífið hjá forsíðufólkinu hefur aldrei verið betra en einmitt núna, já einmitt núna.

Leikari 1: er líka orðinn hress fréttamaður

Þetta er það sem við sjáum á hverjum degi og þetta er það glymur í eyrunum á okkur. Þetta er það sem við viljum öll, er það ekki? Viljum vera fræg, viljum vera falleg, stæltust, fyndnust, best.

Leikari 1&2

Í fréttum er þetta helst.

Ísland er stórasta land í heimi!!

Leikari 1

Á forsíðu er alltaf mynd af sigurvegaranum og það er spegillinn sem við speglum okkur í. Þetta er heimur hinna brosmildu.

Leikkona: (commentum á myndir af slysum – geðveikt eftirpartý etc.)

En hvað um hinar fréttirnar … Eldsvoðar, bílslys, vinnuslys, harmleikir sem við fréttum af, sem hafa  sitt orðalag.  Við fáum svo sjaldan að vita hvað raunverulega gerðist. fluttur á gjörgæslu, lést í gær, haldið sofandi, í lífshættu, úr lífshættu, líðan eftir atvikum. Í hvaða ástandi var þetta fólk þegar slysið átti sér stað?

Leikari 1 og 2 sem fréttamenn vilja ekki svona fréttamennsku og finnst þetta óþægilegt.

Leikari 1

Ég veit það ekki, ég er ekki með þessa frétt

Leikari 2

Ég er bara í íþróttum

Leikari 1 og 2 hætta að vera hressir og verða alvarlegir

Leikari 2:
Kannski er þægilegast að vita sem minnst, en munið að  allir geta staðið í þessum sporum, við getum öll lent í þessu. Við þurfum að geta sett okkur í spor annarra, að allir komi öllum við.  

Leikkona

Strákar þið vitið hver Pamela Anderson er, er það ekki?

Mynd af henni úr barb-wire birtist

Leikari 2

Jú frábær leikkona ….. (improviseraður Pamelu Andersson brandari).

Leikkona

Pamela Andersson er með lifrarbólgu C

Senubreyting sírenur og sýrutónlist og læti

DOBBLECHECKA AÐ VAGNINUM HAFI VERIÐ LÆST

Leikari 1

Ég er ódrepandi lífið fullkomið og þótt ég dræpist í dag akkúrat núna er ég tilbúinn. Komdu og taktu mig guð ef þú þorir, ef þú ert til. Ekki séns. Ljósastaurarnir skilja eftir sig hvítar rákir, sem teigja á mér munnvikin og ég brosi, rákirnar skera himininn í tvennt og tunglið er í panikki að reyna að sauma hann aftur saman áður en stjörnurnar sleppa allar út og vinir mínir veltast um af hlátri aftur í kærastan vonandi syngur með Sálinni með sálinni og tækið í botni. Hún bað mig svo fallega að nei var ekkert svar. Ég ligg í heitu leiðjubaði. Stjörnurnar sleppa út og dansa yfir mér, bara rétt yfir mér. Ég reyni að teygja mig eftir þeim en ég get ekki hreyft mig. Ég heyri hana öskra nafn mitt með sálinni og ég reyni að svara en kem ekki upp orði. Ég er á kafi í skurði og þeir standa yfir mér og velta því fyrir sér hvernig þeir eigi að bera sig að við að ná mér. Ég hljóða af lífs og sálarkröftum því sársaukinn hellist yfir mig eins og skafl og einhver segir að ég hafi svifið 60 metra. Og hún er á lífi því hún var í belti, sem þýðir þá að ... strákarnir eru ... og ég get bara blikkað augunum. Þeir mæla mig. Ég er 0,1 prómilli frá því að vera dauður. “Þú ert heppinn að vera ekki dauður” Er það? Er það það versta sem getur gerst?

Star Wars þemað og Leikkona lyftist upp um lúgu á vagninum, sest upp á þak, fær gítar í hönd og syngur.

Textinn birtist á vagninum eins og í Karókí

.

Ekki keyra eins og fífl

Sama hvað þú segir er það algert bull
að setjast undir stýri - og keyra full
Í nánast hverjum mánuði er einhver nýr
sem kveður þetta líf, tvöhundruð sjötí' og þrír
er tíu ára samanlagður fjöldi af þeim
sem lögðu upp í ferð og komu aldrei heim.

Hægðu aðeins á þér, ekki keyr' eins og fífl
Þetta er pínulítill Yaris, ekki kappakstursbíll!
Og hætt' að senda sms á fullri ferð
umferðin var ekki fyrir farsíma gerð.
Spenntu líka beltið, ætt' að segja sig sjálft.
En stútur undir stýri er með vitið hálft.

Þó að enginn vilji deyj' og drepa
er það e-ð sem að allir geta...

Hér brestur á með miklu instrumental rokki

Unir því birtast myndir af umferðaslysum og slösuðu fólki

Um hægist á ný og leikkona syngur

Þó að enginn vilji deyj' og drepa
er það e-ð sem að allir geta...

Leikkona dettur aftur af vagninum.

LEIKARI 2 VERÐUR AÐ MUNA AÐ TAKA HJÓLIN ÚR LÁS UM LEIÐ OG HANN ER BÚINN AÐ GRÍPA GÍTAR. HANN VERÐUR AÐ HALDA VAGNINUM KJURRUM MEÐAN AÐ LEIKKONA DETTUR

Kristín: Á ákveðnu stigi í drykkju, þegar þú ert orðinn mjög drukkinn, finnst þér eins og þú sért bara næstum því edrú og getir allt. En gættu að þér, það er ekki þannig

Vagninn ekur burt endar sviðshægri

Leikari 1

ýtir vagni yfir Nonna, leikari 2 og Leikkona setja hann í varpastöðu hvar hann er það sem eftir er MUNA AÐ LÆSA

Klukkan er orðin þrjú í bænum og barþjónn er að loka staðnum sínum og ganga frá, stóla upp og ganga frá kertum og svona.  Allt í einu kemur róni þjótandi inn og barþjónninn bregst hinn versti við “ heyrðu góði, út með þig ég er búinn að loka!!” og róninn er bara mjög rólegur og kurteis og segir “ já ég veit … má ég bara fá einn tannstöngul?” “Tannsstöngul?” “Já” “ … ókei … já já gjörðu svo vel” og réttir rónanum tannstöngul. “ þakka þér .. takk takk” og róninn hleypur út eins og fætur toga.  Barþjónninn bara ypptir öxlum og heldur áfram að vinna og annar róni kemur inn og barþjónninn segir “ hvað er þetta maður … svona út með þíg ég er að reyna að loka” “ ´já ég veit” segir róninn “gæti ég nokkuð bara fengið einn tannstöngul?” “þú líka” róninn jankar “já já … okei, hérna” og þessi róni rýkur líka út. Og barþjónninn heldur áfram að vinna og það kemur annar róni og biður um tannstöngul og sá fjórði og barþjónninn fær alveg nóg og ákveður að læsa bara hurðinni. Rétt í þann mund sem hann er að læsa kemur einn róninn enn og bankar á hurðina alveg að missa það úr æsingi og barþjónninn aumkar sig yfir hann og opnar og segir “ ókei, hvern andskotann viltu?” “Bara eitt rör” “Rör!???” segir barþjónninn og hlær “ bíddu af hverju rör … af hverju viltu ekki tannstöngul eins og hinir?” “Ja sko … það ældi einhver frábærri pizzu hérna fyrir utan og strákarnir eru bara búnir með alla bitana”. 

Leikari 2

Ojjjjjj

Leikari 1

Smá djók þetta er eina skiptið í þessu verki sem við segjum ekki satt   … en þessi saga er sönn … maðurinn sem sagði okkur hana sá þetta með eigin augum.  Hann var að djamma á sóðalegum stað í útlöndum og kom inn á klósett þar sem sprautufíkill sat úti í horni hjá hlandskálunum og skalf og svitnaði úr fráhvörfum. Og út af lokuðu klósetti kemur annar fíkill sem var greinilega nýbúinn að sprauta sig soldið mikið og líkami hans gat þetta ekki og reyndi að losa sig við eitthvað af eitrinu og hann ældi á gólfið á klósettinu. Og hinn fíkillinn sá sem var í fráhvörfunum stökk til og drakk æluna, í von um að það væri kannski eitthvað smá dóp í henni.

Leikari 2:
Svona er fíknin sterk.  Ef þú verður fíkill, áttu ekkert stolt, ekkert velsæmi og stjórnar engu. Fíknin stjórnar þér og þú veist ekkert af því hvenær þú missir tökin … fyrr en löngu eftir að þú misstir þau. Svava sagði okkur þannig sögu,  hún var alveg venjuleg, átti ekkert erfitt og 18 ára var hún orðin formaður nemendafélagsins í menntaskólanum sínum, í Gettu betur og svona.  Hún var með fullt af framtíðarplönum og mottóum og eitt var að dópa aldrei.  Henni fannst gaman að djamma og var einhverntíman eftir tveggja daga drykkju boðið spítt til að geta djammað meira ... sem hún þáði.  Hún vissi ekkert hvað spítt var og henni brá mjög mikið nokkrum vikum síðar þegar henni var sagt að spítt væri Amfetamín.

Leikari 1

Vissuð þið það?

Leikari 2

Hún allavega vissi það ekki og varð mjög reið … en hún hætti ekki samt … hún var orðin háð … og hugsaði þess í stað … hey, fyrst ég er búin að brjóta þetta mottó þá bara … fokk it.  Fyrst hún var farin að nota amfetamín gat hún allt eins notað kókaín. Og fyrst hún var byrjuð á því fór hún að droppa sýru og fyrst hún var farin að gera það prufaði hún að sprauta sig.

Leikari 1

Hugsið ykkur ... hún fór á botninn á einu og hálfu ári

Leikari 2

Þegar Svava var 21 og búin að vera edrú soldin tíma en með alvarlegar lifrarskemmdir, vegna lifrarbólgu C, gat hún ekki meir. Hún hafði fallið illilega, lent á spítala og endaði líf sitt með of stórum skammti.

Leikari 1:
Svava bað okkur að skila þessu til ykkar … “ … hvað eruð þið tilbúin að borga fyrir lífið?  Missa fjölskyldu, vini, klúðra menntun ykkar og framtíð, selja ykkur fyrir dópi og valda sjálfum ykkur varanlegum líkams- og heilaskemmdum”.

SenubreytingJóhanna

Leikkona:

Það fylgja því skyldur að vera prinsessa – maður getur bara ekki angað af skítalykt eða svitalykt með táfýlu í skónum!  Mér líður eins og ég sé að fá hita. Ég ætla að hætta ... ekki kannski í dag ... ég þori ekki að sofna ... (skoðar sig í spegli) þetta er það sem gerist alltaf – ég verð svo þurr á nefinu ... (ber á sig andlitskrem) nú hætti ég ... aldrei meir ... fínító! Bara síðasta fixið ... (gramsar í vösunum) einhver smá peningur eftir ... ég ætla að vera svo dugleg ... þá verður ekki svona erfitt að labba upp og niður stigana. Kannski batnar sambandið líka. Ég veit að hann elskar mig – hann er bara svo mikill fíkill líka. Ég fer bara í líkamsrækt ... mig langar ekki að vera svona mikill aumingi ... mig langar bara svo mikið til að einhver elski mig! Ég verð að gera eitthvað! Ég verð að gera eitthvað við líf mitt!

Leikari 1:

Jóhanna gerði eitthvað við líf sitt. Hún tók þá ákvörðun að taka örlögin í sínar hendur. Hún fór í margar meðferðir, og að lokum  tókst það.  Hún var búin að vera edrú í nokkur ár, en hún var orðin svo illa farin, sködduð á heila, sál og líkama. Þessir draugar fylgdu henni alla leið. Hún endaði á að taka líf sitt! Það var áfall að frétta að hún hefði gert það.  Samt kom það manni ekkert á óvart. Henni hafði liðið svo illa svo lengi. Jarðarförin var alveg skelfileg. Ég get eiginlega ekki rifjað hana upp. Hugsunin um að við hefðum getað stöðvað þetta, bara ef við hefðum hlustað. Bara ef við hefðum stöðvað ferlið á meðan hún var ennþá barn.  Bara ef... alltaf þetta ef ...

Senubreyting

Leikkona

Það er eitt að djamma, annað að vera í ruglinu og svo er það geðveikin. Þegar lífið fer að snúast eitt og aðeins eitt, næsta skammt.

Leikari 1

Strákar eru líka alveg að selja sig og þeim er líka alveg nauðgað, það er bara enginn sem vill tala um það.

Leikkona

Það undarlega er að sama hvað maður er djúpt sokkinn, jafnvel að sprauta sig bara með hverju sem er og brjótast inn út um allt, manni finnst geðveikin alltaf jafn fjarlæg. Maður finnur sér alltaf einhvern annan að miða sig við sem er verri en maður sjálfur.

Leikari 1:

þú ætlar ekkert að vera fáviti og segja foreldrum þínum að éta skít eða eitthvað, ræna og svoleiðis en þú verður bara svo eigingjarn og sjálfselskur þegar þú ert í neyslu.

Leikkona

Það er kannski verið að nauðga og berja vinkonu manns inni í herbergi og maður er bara frammi að hugsa “hey hvernig get ég fengið sem mest út úr þessu partýi!

Leikari 1:

Maður sér ekki að það snýst um eitthvað meira og hefur áhrif á aðra. Maður getur ekki verið maður sjálfur og þess vegna leitar maður í dópið.

Senubreyting fangelsi

Nonni Echo:

Það hafa allir kallað mig Nonni Ekkó síðan í mússíktilraunum 2000. Og nú er ég í fangaklefa. Ekkó...

Á heimavelli. Klefinn minn er ekki stór. 3x2 metrar. Ferköntuð djöfuls kompa þar sem ég á dúsa næstu árin.  Ég fékk þrjú ár, mínus níu vikur sem ég sat í gæsluvarðhaldi. Það tók þennan eilífðar djöfuls tíma að komast í gegnum sönnunargögnin og djöfuls ruglið í skvílerum sem kjöftuðu upp á mig nógu mörgum andskotans glæpum svo ég fengi að dúsa sem lengst inni. Sumt af því sem ég frétti eftir að ég kom á Hraunið var bara tóm steypa! Ég meina sko gaurar eins og við standa bara saman um ákveðna hluti! Einu sinni sat ég í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur án þess að segja eitt einasta djöfuls orð. Maður skvílar ekki. Þannig er það bara.  Á endanum gáfust þeir upp og létu mig lausan. Ég vann! Það varð aldrei neitt böst. Nú býður fíknó bara upp á allskonar díla. Skvíla og sleppa með áminningu! Óver mæ dedd boddí!

Nú er málið öllu alvarlegra. Manndráp! Eða fokking helvítis tilraun til manndráps! Ég stakk hann! Ég vildi óska þess að hann hefði drepist. Hnífsblaðið var bara ekki nógu langt. Stakk í gegnum miltað og einhverja slagæð svo maginn og allt draslið fylltist af blóði en þeir björguðu honum. Helvítin björguðu honum. Það bjargar mér enginn!

Sannleikurinn

Þú getur reynt að stæla mig - þú getur reynt að stoppa mig
en sama hvað þú gerir mér þá getur' ekki toppað mig
Þú floppaðir, gott á þig, þú reynir þig að þenja
En átt þó ekki séns í mig, æ farðu ekk' að grenja,

Byrjaði svo saklaust - byrjaði svo hratt
Eitt skref í einu og svo hljóp ég og ég datt
Það er satt, það er kannski pínu byrjandahroki
að reyn' að halda jafnvægi á þvottasnúr' í roki.

"Fáð'ér pínu smakk. Hvað gæti svo sem gerst?"
Þér ferst. Og það sem var þó langt-langtum verst
var að stöffið það var geðveikt, vildi meira, vildi meira.
Og meira vildi meira vildi meira, vildi meira!

Í gegnum allan grunnskólann - kennarar í kór:
,,Hvað verður þú - þegar þú verður stór?"
Lítill patti með hor, með hangand' yfir sér
heldjúpa framtíð, þeir gátu ekki sagt mér

Sannleikann
Þeir lugu að mér...
Sannleikann
Þeir fundu sig knúna...
Sanleikann
Hvað myndu þeir segja...
Sannleikann
ef þeir sæju mig núna?

Og svo prófað' ég þetta, og svo prófað' ég hitt
Og skamturinn varð stærri, "ég þarf meira svona sjitt"
Er kominn inn á klósett, er kominn niðr'á hné.
Hvað með það þó gaurinn sé með lifrabólgu C?

Nálin fer í klósettið, við eigum bara eina
Klósettvatnið hlýtur jú að gera hana hreina.
Ég veina og treina, reyni að greina
umhverfið í kringum mig, en sé ekki neina.

Ég leggst bara útaf - allt verður svart
Ég veit ekki neitt, en ég finn að eitthvað hart
óvart, óspart, vera rekið á kaf
Í síðun' á vini mínum meðan ég svaf.

Og nún'er ég í klefa, það er allt í fokking hnút.
Fæ heitan mat og bedda en mig langar samt svo út.
Allt í hnút, flöskustút-urinn lenti á mér
Það eina sem ég geri er að segja þér

VIÐLAG

(Talar):
Vá, hvað ég man hvernig þetta var maður. Stóð á sviðinu, allt að verða
vitlaust. Komið að kallinum. Sjitt maður!

Rappið sem hann tekur í byrjun:

Kellingar og byssur, kellingar og byssur
Kellingar og byssur útum allar fokking trissur!
Mættur á svæðið, eins og Gordon fokking Gekkó!
Gettu hver það er - Þett' er Nonni fokking Ekkó!

Ég er- Nei... bíddu.

Það er ekkert sem kallinn-

Nonni Echo ruglast í textanum, hann er farinn að gleyma. Fyrstu tvö erindin fjalla um ástandið sem hann er kominn í, um geðveikina. Annað erindið kannski um það hvernig hann komst þangað, hvernig hann smám saman fór yfir í geðveikina missti tökin braut mottóin og svo bara allt einu var hann kominn þangað.

Þriðja erindið, er kannski bara farið aftur í rappið sem hann flutti í upphafi, sem er það sem hann ætlaði sér, að verða aðal kallinn.

Hann klúðrar því,hefur misst sjónar á upphaflegu markmiðunu.

Leikari 1:

Kemur út og stoppar Nonna Echo, allt frís.

Krakkar, áttiði ykkur á því að gæjinn sem Ævar er að leika er í alvörunni til. Ævar spjallaði við hann heillengi upp  á Arnarhóli bara um daginn.

Nonni Echo

Hey ... hérna ertu ekki leikari?

Gummi

Nonni Echo

Er ég nokkuð að trufla

Gummi

Já eiginlega ... við erum hérna í miðri leiksýningu ...

Nonni Echo

Ok ... osom

Hann kemur til Gumma

Nú erum við nátttúrulega báðir frægir þú varst þarna í Iron Maiden og ert þarna í Hlemma vídeo, djöfuls sóðakjaftur.

Og ég náttúrulega stofnaði Dreyra ... unnum mússíktiraunir 2000, eða urðum í öðru sæti, unnum salinn, dómnefndin bara meikaði ekki sannleikann. Vitnar í sigurlagið ... nokkrar línur ... og nikkar ... Áhorfendur eiga að botna síðustu línuna ... þeir muna ekki. Viltu buxur, ég er besti þjófur á Íslandi. Fólk er oft að spyrja mig ‘hey hvernig geturðu stolið þessu?’ Strikamerki. Ég er bara, strikamerki huh, bara teygi mig yfir. Hey .. ég er hótelstjóri hér og Óli bara eitthvað .. ég er ekki hommi?

Gummi

Þetta er svoldið týpískt ástand eftir langvarandi vímuefnaneyslu. Hann dettur úr einu í annað. Er orðinn 25 ára en er en algerlega fastur í mómentinu þegar hann vann mússíktilraunir fyrir tíu árum ...

Nonni

Öðru sæti.

Gummi

Okei, Síðan hefur bara ekkert gerst nema ...

Nonni

Ekkert gerst? 550

Gummi

Ha?

Nonni 

Ég á heimsmet á Íslandi í skráðum afbrotum, 550, og það er bara brot af því.

Gummi

Ókei

Nonni

Ókei? Það er geðveikt mikið sko. Næsti gaur fyrir neðan mig er með 297 brot og hann er 30 árum eldri en ég sko.

Gummi

Nonni ... inn. Inn í klefa, útivistartíminn búinn. ‘Ég er hótelstjóri hér?’

Þetta er svolítið það sem gerist. Munið eftir honum í upphafi, fullum af metnaði og hélt að ekkert gæti stoppað hann? Hann ætlaði sér að verða frægur fyrir allt annað en að verða besti þjófur á Íslandi. Svona breytingar gerast smásaman, þegar maður byrjar að brjóta mottóin sín. Það er líffræðilega sannað að neysla vímuefna breytir heilanum varanlega. Meira að segja bara eitt fyllerí. Heilinn verður aldrei samur eftir neyslu. Og því meira og því lengur sem maður er í neyslu því meira grillar maður í sér heilann.

Upp á skjá koma slidemyndir af heila

Leikkona
Í heilanum eru tvær meginstöðvar sem stjórna gerðum okkar.  Köllum aðra þeirra skynsemisstöðin ... sem er soldið lengi að þroskast og er alla jafna ekki fullþroskuð fyrr en um tvítugt. Það er hún sem gerir það að verkum að fullorðið fólk getur yfirleitt tekið skynsamlegri ákvarðanir en unglingar.

Leikari 1

Svona oftast nær. Fullorðnir ættu allavega að hafa heilann í það.

Leikkona

Hin stöðina skulum við kalla gleðistöð, hún framleiðir efni sem gerir okkur glöð ef við gerum rétt.  Gerir okkur glöð ef við borðum, ríðum og þess háttar, efnin sem hún losar til heilans heita dópamín og endorfín og sendir þau til framheilans. Þessi stöð stjórnar mestu í hegðan barna og unglinga.  Amfetamín og kókaín Pína  gleðistöðina til að losa þessi efni.

Leikari 1:

Það er auðveldara en þið haldið að skemma gleðistöðina varanlega þannig að þið getið aldrei orðið glöð eða róleg í hjartanu án lyfja. Maður getur pínt gleðistöðina svo mikið að hún skemmist. Þið getið grillað og eyðilagt á ykkur heilann og eyðilagt taugaenda þannig að þið verðið alltaf, kvíðin, þunglynd, stressuð, óörugg,

Leikkona:

Ungt fólk fær oft sína fyrstu upplýsingar um fíkniefni frá þeim sem þegar eru farnir að umgangast þau, sölumönnum og neytendum. Þær upplýsingar eru yfirleitt kolrangar og stundum vísvitandi ósannar í þeim tilgangi að fá fólk til að prufa.

Leikari 1

(fyrri myndin kemur upp ... hún sýnir flæði serótóníns um heilann) Nú veit ég ekki hvar þið eruð stödd í líffræði ... vitiði hvað serótónín er? (Nei) Ok ... serótónín er efni sem heilinn framleiðir sjálfur og heldur okkur í jafnvægi ... það er ekki sama kikkið og adrenalín eða dópamín en það heldur okkur í jafnvægi og bjartsýnum ...þið hafið öll heyrt um prósak (já) ok ... það er serótónín lyf.  Fólk sem er í alvörunni þunglynt vantar yfirleitt serótónín og fær þá lyf sem örvar serótónín framleiðslu líkamans eða bara lyf sem eru serótónín þannig að það bara borðar hreint serótónín.  Eins og þið sjáið á myndinni þá hefur serótónín áhrif á alla starfsemi heilans ... bæði hérna í gamla heilanum ... þar sem frumhvatirnar búa ... borða, kúka, pissa, sjón, heyrn hreyfingar og þessháttar og líka í heilaberkinum, sem er það sem skilur okkur frá öðrum spendýrum ... hér búa þessar mannlegu gáfur sem valda því að við getum lært af reynslunni , tekið rökréttar ákvarðanir gert stókostleg plön 10 ár fram í tíman og svo framvegis. Gamli heilinn er eiginlega alveg eins í okkur og öðrum spendýrum og ástæðan fyrir því að ég segi ykkur þetta er ... næsta mynd (næsta mynd kemur upp, þrjár þverskurðarmyndir af apaheila, eðlilegum, 2 vikum eftir e-tripp og 7 árum eftir e-tripp) Þetta hérna er þverkurðar mynd af heila í apa og þetta fjólubláa er serótónín. (bendir á fyrstu myndina sem er mjög fjólublá) Þetta hérna er eðlilegt ... svona erum við örugglega flest hérna inni ... sæmilega glöð og ánægð með lífið og tilveruna.  Nema þessi mynd er af apaheila en munið það sem ég sagði áðan um að hann virkar alveg eins og mannsheili.  Þessi api var síðan settur á massíft fjögurra daga e-pillu trip. (viðbrögð) Jabb ... við gerðum það ekki ... allt í nafni vísindanna ...en hann var semsagt hress í fjóra daga en fékk síðan ekki meir og aldrei aftur eftir þetta ... og tveim vikum seinna var tekin önnur mynd af heilanum í honum og sjáiði ...eiginlega ekkert serótónín ... þetta er þunglyndur api ... þennan apa langar ekkert mikið að vakna hress og fara út að klifra og fá sér banana og hugsiði ykkur ... sjö árum seinna var tekin önnur mynd og þið sjáið að serótínin magnið í heilanum á honum er ekki einu sinni helmingur af því sem það var áður en hann fékk e-ið. Og þetta virkar einfaldlega þannig að þið eruð kannski að borða ís ... og allir er að borða ís í kringum ykkur og eru alveg ... mmmm hvað þetta er gott ... og þið vitið alveg að ísinn á að vera góður en kikkið kemur ekki því að þið eruð búin að eyðileggja taugendana sem eiga flytja skilaboðin á rétta staði.  Og vinur ykkar er að segja brandara og allir hlæja og þið vitið að hann er fyndinn en þið hlæjið ekki af því að kikkið kemur ekki.  Og Esjan er ekki falleg og jólin eru ekki skemmtileg ... ekki af því að það sé ekki allt í lagi með heiminn heldur af því að þið eruð búin að skemma í ykkur heilann.

Umræður við krakkana

Leikari 2:

Eruð þið með mottó krakkar?  Hvaða mottó eruð þið búin að setja ykkur fyrir lífið?  Eða takmörk?  (fullt af viðbrögðum og spjalli og svona))

Leikari 1:

Hvar ætliði að verða þegar þið eruð tvítug?

Þetta eru punktar fyrir okkur sem ættu  að koma fram í umræðum.

Samanlagðar líkur Íslendinga á því að þurfa að leita sér áfengis- eða vímuefnameðferðar einhverntíman á ævinni 2009.

Strákar/karlar 18,6,  konur/Stúlkur 9,6 %

Það er ekki eðlilegt ástand að vera út úr drukkinn og dauður.  Það er ekkert eðlilegt við vera hauslaus og hafa ekki hugmynd um hvað maður

er að gera og það sem verrra er að hafa ekki hugmynd um eða geta neitt við því gert hvað er gert við mann.

Munið að það er val að bara ... drekka ekki, það er hægt. Og við eigum ekki að umbera þetta svona eins og algerlega sjálfsagðan hlut. Það er ekkert sjálfsagt að einhver bara æli út um allt eða skemmi hluti eða eyðileggi partýið og bara “ æji hann var bara fullur” eða “æji hún bara kann ekki ennþá að drekka”

Leikkona:

Ok, gott … gott hjá ykkur … reyniði að halda í mottóin ykkar, það skiptir gríðarlega miklu. Þið kannski ætlið aldrei að drekka þegar þið eruð 12 ára. 14 ára, eruð þið kannski byrjuð .. bara af því bara …  og svo er stutt í  “ok ég er byrjaður að drekka og þá skiptir nú engu þótt ég fái mér eina og eina sígarettu á fylleríi ”  Og áður en þið vitið eruð þið kannski farin að reykja daglega og farin að hugsa um að prufa eitthvað meira spennandi þegar áfengi og sígarettur verða hversdagslegt fyrirbæri.

Leikari 1

Hvert ár sem þið frestið því að drekka og ég tala nú ekki um að dópa, er hreinn gróði. Hvert ár, hver önn, hver mánuður, vika, sem þið leifið heilanum ykkar og líkamanum að vaxa og þroskast án þess að brengla starfsemina með vímuefnum er hreinn gróði. Ekki byrja ... en ef þið eruð ákveðin í að byrja ... ekki gera það strax, frestið því jafn lengi og þið getið.

Leikari 2

Vonandi hafið þið orðið einhvers vísari. Það er eins og segir einhvers staðar: fyrst þarf ég að læra að hlusta og síðan hlusta ég til að læra. Við höfum bara sagt ykkur sannleikann og það er einmitt sannleikurinn sem gerir mann frjálsan ekki víman.

Leikkona:

Víma er gríma og þegar ég er með grímu þá þekkir mig enginn.

Leikari 1:

Víma er gríma og þegar ég fel mig á bakvið hana get ég gert hvað sem er.

Leikari 2:

Víma er gríma en gríman er aldrei ég-af því ég er ekki blekking-ég er ég!

Hvað ef (lokasöngur)

Gummi: Hvað ef hætti sól að vekja sérhvern dag?

Jara: Hvað ef nóttin dytti niður, fengi slag?

Ævar: Hvað ef augun allt í einu hættu’ að sjá

G&J: og hvað ef hjartað gæfist upp á því að slá.

Ævar: Hvað ef hefði ég ekki sagt þetta’ eina orð.

Jara: Hvað ef prúð við sætum öll við sama borð.

G&Æ: Hvað ef ekki þýðir neitt um neitt að fást?

Allir: Hvað ef ekki er til þessi eina sanna ást?

Hvað ef hefði ég verið með sjálfum mér,

hvað ef hefði ég bara hugsað lengra hér.

Hvað ef hefði ég verið, hvað ef hefði ég verið,

hvað ef hefði ég verið með sjálfum mér.

Hvað ef hefði ég verið, hvað ef hefði ég verið,

hvað ef hefði ég verið með sjálfum mér.



 

FYLGSTU MEÐ OKKUR Á:

309x229_hvad-ef_bolir_nanar1

Lögin í sýningunni


PopUp MP3 Player (New Window)

Hvað segja sýningargestir?

var á sýningunni í dag og fannst hún vera æðislegt, fræðandi en fyndin og skemtileg um leið. held að allir hafi gott að því að fara á svona leikrit því maður lærði mjög margt af því :)

Bryndís Arna Þórarinsdóttir

Styrktaraðilar

<